Sund

Sundstaðir í Reykjavík

Skelltu þér í sund eða pottana í einni af okkar fjölmörgu sundlaugum í borginni!
Teaserboxes
Árbæjarlaug

Árbæjarlaug er skemmtileg og fjölskylduvæn sundlaug sem staðsett er í Árbæjarhverfi. Laugin er nýtískuleg og glerþak yfir innilaug skapar einstaka stemningu. Glæsileg útisundlaug sem er tengd við innilaug, eimbað, heitir pottar og kaldur pottur. Ein stór vatnsrennibraut og önnur minni fyrir litlu börnin.

Árbæjarlaug er staðsett rétt við útivistarparadísina í Elliðaárdal og því fullkomin áfangastaður fyrir hjólandi og gangandi gesti.

Sundlaugin er opin alla virka daga frá 06:30-22:00 og um helgar frá 09:00-22:00

Breiðholtslaug

Breiðholtslaug við Austurberg er ein af eldri laugum borgarinnar en hún hefur fengið mikla andlistlyftingu undanfarin ár. Í lauginni er 25m útilaug, innilaug og barnalaug. 

Leiktæki eru fyrir minnstu börnin og skemmtileg þrautabraut þegar veður leyfir, tvær stórar rennibrautir og ein fyrir yngri börn. Þrír heitir pottar eru í lauginni ásamt vaðlaug.

Sundlaugin er opin alla virka daga frá 06:30-22:00 og um helgar frá 09:00-22:00.

Grafarvogslaug

Grafarvogslaug yngsta sundlaug Reykjavíkur og var tekin í notkun árið 1998. Laugin er íbúum hverfisins ofarlega í huga og hafa þeir tekið virkan þátt í mótun hennar í gegnum íbúalýðræðisverkefni.

Í lauginni er að finna innilaug, útilaug, barnalaug, tvær stórar vatnsrennibrautir, heita og kalda potta ásamt tveimur vaðlaugum þar sem börn geta leikið sér og fullorðnir sólað sig.

Sundlaugin er opin alla virka daga frá 06:30-22:00 og um helgar frá 09:00-22:00.

Laugardalslaug

Laugardalslaug er stærsta sundlaug landsins og staðsett í miðjum Laugardalnum. Í lauginni eru bæði 50m innilaug og útilaug, barnalaug, vaðlaug, steinapottur, fjórir heitir pottar, kaldur pottur og sjópottur.

Sjórinn í pottinn kemur úr borholu á Laugarnestanganum. Áður en sjórinn er tekinn inn fer hann í gegnum forhitara til þess að ná upp réttu hitastigi.

Sundlaugin er opin alla virka daga frá 06:30-22:00 og um helgar frá 08:00-22:00.

 

Sundhöll Reykjavíkur

Sundhöllin er elsta almenningslaug á Íslandi. Hún var tekin í notkun árið 1937 og er talin með bestu byggingum Guðjóns Samúelssonar.  Á áttugasta afmælisári laugarinnar var tekin í notkun 1.140 m2 viðbygging og útilaug sem ekki hafði verið til staðar áður.

Gamla innilaugin er með tveimur stökkbrettum 1m og 2.75m frá vatnsyfirborði, stór vaðlaug, nuddpottur og kaldur pottur eru við hlið útilaugar. Á efri hæð eru tveir heitir pottar og sólbaðsaðstaða á þaki.

Laugin er staðsett í hjarta borgarinnar og stutt í almenningssamgöngur.

Sundlaugin er opin alla virka daga frá 06:30-22:00 og um helgar frá 08:00-22:00.

Vesturbæjarlaug

Vesturbæjarlaug er notarleg og vel sótt laug með stóran fastakúnna hóp í göngufæri við miðborgina. Þar er er boðið upp á inniklefa, útiklefa, sánaklefa og sérklefa. Laugin sjálf er 25 metra útilaug auk barnalaugar með lítilli rennibraut.

Á laugarsvæðinu eru fimm heitir potta þar af tveir með nuddi, einn kaldur pottur og eimbað.

Sundlaugin er opin alla virka daga frá 06:30-22:00 og um helgar frá 09:00-22:00.

Klébergslaug

Klébergslaug er í íþróttamiðstöðinni á Kjalarnesi. Þetta er sundlaug í alfaraleið og í dásamlegu umhverfi við sundin blá.

Sundlaugin er opin mánudaga til fimmtudaga frá 15:00 - 22:00, föstudaga frá 15:00 - 19:00 og um helgar frá 11:00 - 18:00.

dalslaug
Dalslaug
Dalslaug er nýjasta viðbótin við sundlaugarnar í Reykjavík. Laugin opnaði 11. desember 2021. Laugin er 25 metra löng með sex brautum. Laugin er útilaug en einnig er innilaug sem verður notuð til kennslu og æfinga.
Nauthólsvík

Nauthólsvík hefur verið einn helsti sjóbaðsstaður Reykvíkinga frá árinu 1949. Sérstaða strandarinnar er mikil. Samspil sjávar, strandar, heita vatnsins og náttúrunnar er magnað og mikil reynsla að upplifa.

Ylströndin í Nauthólsvík hefur sannarlega fest sig í sessi sem paradís í borgarlandinu sem laðar að jafnt innlenda sem erlenda gesti. Voldugir sjóvarnargarðar loka af fallegt lón þar sem kaldur sjór og heitt vatn renna saman í eitt.

Inn fyrir garðana hefur verið dælt gullnum skeljasandi og minna þessar aðstæður meira á strendurnar við sægrænt Miðjarðarhafið en vík í nyrstu höfuðborg heims við Norður-Atlantshafið.

Ylströndin er opin alla daga frá klukkan 10:00 – 19:00.

#borginokkar