Listasafn Íslands
Listasafn Íslands er þjóðlistasafn og leggur megináherslu á 19. og 20. aldar list, íslenska og erlenda. Það á merkasta safn íslenskra verka hér á landi og eftir alla helstu myndlistarmenn þjóðarinnar. Það hefur einnig að geyma vaxandi safn erlendra verka eftir heimskunna listamenn.
Listasafn Íslands heldur að staðaldri fjölbreyttar sýningar sem endurspegla listaverkaeign þess. Auk þess efnir það árlega til víðtækra sérsýninga á verkum íslenskra sem erlendra listamanna. Í tengslum við þær eru gefin út ítarleg og vönduð rit.
Í safnbyggingunum að Fríkirkjuvegi 7 eru nokkrir sýningarsalir á þremur hæðum, safnbúð og kaffistofa.
Í skrifstofubyggingunni að Laufásvegi 12 er sérfræðibókasafn með heimilda- og ljósmyndasafni og forvörsludeild.