Úthlutað úr Menningarnæturpotti Landsbankans og Reykjavíkurborgar
Í ár fá 22 spennandi verkefni styrki úr Menningarnæturpotti Landsbankans og Reykjavíkurborgar en öll eru verkefnin til þess fallin að gleðja þátttakendur Menningarnætur 2023.
Starfshópur á vegum Reykjavíkurborgar valdi styrkþegana en alls bárust 100 umsóknir í ár. Samtals eru veittir styrkir fyrir fjórar milljónir króna. Verkefnin felast meðal annars í því að færa borgarbúum myndlist, tónlist og fjölbreytta listgjörninga, innan- og utandyra.
Styrkirnir fara bæði til einstaklinga og hópa en tveir listhópar hljóta sérstakan styrk frá Reykjavíkurborg vegna verkefnisins „Listrænn umbreytir Menningarnætur“. Hóparnir taka yfir svæði í miðborginni og umbreyta því með listrænni nálgun. Fjölbreytt dagskrá verður í boði á Menningarnótt og vonandi leikur veðrið við hátíðargesti.
Sjáumst á Menningarnótt 19. ágúst!
Menningarnæturpottur 2023
Fígúrur á ferli
Daniel Adam Pilkington
Borgin verður glædd lífi með furðulegum fígúrum víðs vegar um borgina, tröllinu Tufta og börnum hans, flamingófuglunum tveimur og glæsilegum haferni. Átta einstaklingar stýra þessum skemmtilegu fígúrum sem koma fram á ýmsum stöðum í miðborginni og lífga upp á mannhafið.
GRAB the SUN
Mai Shirato og Atli Rúnar Bender
Farandprentsmiðjan „Bruum Bruum“ býður gestum á silkiþrykks- og myndlistarsýningu í gömlum húsbíl. Gestir geta fylgst með ferli silkiþrykks og „GRAB the SUN“ mun færa gestum sólarljós til að njóta síðsumarsstemningarinnar. Ókeypis kaffi og kleinur fyrir gesti.
Hátíð á Holtinu
Hótel Holt
Á Menningarnótt mun Neon skilti Hótel Holts sem hefur prýtt götumynd Reykjavíkurborgar síðan 1965 verða sett upp að nýju, en það hefur verið í viðgerð um nokkurn tíma. Í tilefni af þessum tímamótum mun Ragnar Kjartansson listamaður afhjúpa skiltið á listrænan hátt. Boðið verður upp á tvenna tónleika á Hótel Holti yfir daginn; annars vegar með Ólöfu Arnalds söngkonu og hins vegar djasstónleika.
Við erum jörðin - við erum vatnið – dansgjörningur
Lilja Björk Haraldsdóttir
Danshópurinn Soft collective mun flytja dansgjörning í samspili við margmiðlunarsýninguna Við erum jörðin - við erum vatnið sem stendur yfir í Sjóminjasafni Íslands. Dansgjörningurinn verður endurtekinn nokkrum sinnum yfir daginn og mun eiga sér stað allt í kringum áhorfendur. Áhorfendum er boðið inn í síbreytilegt rými upplifunar með dönsurum sem færa sig um rýmið í stöðugu samtali við það myndefni sem birtist á veggjum sýningarsalarins.
Dauðir hlutir
Jónína Óskarsdóttir
Menningarfyrirbærið geymsla verður opin til skoðunar og skráningar í fjölbýlishúsi í vesturbænum. Hlutirnir í geymslunni eru flestir frá því á seinni hluta 20. aldar, sumir eldri. Gestir hjálpa til við skráningu hluta sem verða bornir undir þá og skráðir af starfsmanni minjasafns. Gestum gefst kostur á að skrifa minningar sínar eða orð sem tengjast hlutum sem þeir sjá í geymslunni - sem síðan verða sett inn á instagram ásamt mynd af hlutnum.
Coney Iceland fjölskyldusýning
Aðalheiður Broomfield Flosadóttir
Coney Iceland sirkus heldur sýningu í samstarfi við Iðnó. Hópinn skipar ýmiss konar fjöllistafólk eins og til dæmis sverðgleypirinn Jelly Boy the clown, fimleikasirkusmaðurinn Nonni, glæsilega dragdrottningin og uppistandarinn Sindri Sparkle, sem fékk verðlaun á Fringe hátíðinni 2022 og fleiri listamenn.
Tvær barnasöngstundir með Ólöfu Arnalds
Mengi
Mengi stendur fyrir barnasöngstund með Ólöfu Arnalds söngvaskáldi. Búast má við notalegri baðstofustemningu og samsöng fyrir börn og foreldra, söngskrá með textum verður varpað á vegg. Auglýst verður eftir óskalögum frá börnum á samfélagsmiðlum.
Brasilísk hreyfing og gleði með Capoeira
Capoeira félag Íslands
Capoeira félag Íslands mun bjóða upp á glæsilega sýningu og ókeypis prufutíma fyrir almenning með fjórum brasilískum meisturum. Síðar munu meistararnir og Capoeira hópurinn á Íslandi halda magnaða sýningu þar sem fljúgandi spörk, bakbeygjur og flæðandi hreyfingar munu skemmta börnum jafnt sem fullorðnum.
Dansað um heiminn: Danspartý fyrir alla fjölskylduna
Happy Studio
Anna Claessen og Friðrik Agni úr Happy Studio verða með danspartý þar sem þau munu leiða fólk um allan heim með mismunandi dansstílum. Frá Indlandi til Kúbu, Afríku og víðar. Bollywood, salsa og fleira. Dönsum og gleðjumst saman.
R6013 á Menningarnótt
Tónleikarýmið R6013
Tónleikarýmið R6013 - sem er til húsa í kjallaranum í Ingólfsstræti 20 - hyggst, brjótast út úr þröngum kjallaranum og halda fjölbreytta útitónleika með því að stilla upp sviði á götunni gegnt húsinu. Boðið verður upp á heitan mat fyrir gesti og gangandi, eins og venjan hefur verið á tónleikum í Ingólfsstræti.
Hýrlegheit
Vigfús Karl Steinsson
Hýrlegheit byggist á tónleikum, drag og annars konar sviðslistum hinsegin listafólks. Markmið viðburðarins er að skapa öruggt svæði (e. safe space) og beina sviðsljósi að hinsegin listafólki á Íslandi með því að gefa hæfileikaríkum einstaklingum á öllum aldri vettvang til að koma sér á framfæri. Á viðburðinum Hýrlegheit verða umburðarlyndi, samkennd og fjölbreytileiki í forgrunni til að skapa öruggt og fallegt rými fyrir öll.
GoGo Menning
Yeoman ehf
GoGo dansarar munu sýna listir sínar við verslunina Yeoman á Laugavegi. Hreyfing og áhrif haldast í hendur þegar kemur að straumum og stefnum tískunnar. Yeoman mun fá til sín dansara og tónlistarmenn til að leiða fólk í dans og nota þar með almannarýmið sem vettvang svo að allir geti dansað að vild og notið stundarinnar.
Tónlistarveisla á Vínstúkunni
Vínstúkan Tíu sopar
Blásið verður til heljarinnar tónlistarveislu á Menningarnótt á Vínstúkunni Tíu sopar á Laugavegi 27. Fjölbreytt flóra listamanna mun spila fyrir utan Vínstúkuna til yndisauka fyrir gesti og gangandi.
Kram-karnival
Kramhúsið og Kramber
Kramhúsið og Kramber bjóða upp á þrískipta dagskrá á Menningarnótt. Á útisvæðinu fyrir framan Kramber verða danssýningar: Afró, húlla og tangóball. Í portinu og á útipallinum við Kramhúsið verður fatamarkaður til styrktar dans- og tónlistarskóla í Gíneu, og DJ-ar þar sem Hafdís Árnadóttir, 85 ára, grípur meðal annars í geislaspilarann. Inni í Kramhúsinu sjálfu verða svo danstímar sem opnir eru almenningi.
Ungar hljómsveitir á Óðinstorgi
Nemendafélag Miðstöðvarinnar
Hljómsveitirnar Dóra & Döðlurnar, 5K, Silfur og Espólín eru starfandi í Miðstöðinni. Miðstöðin veitir ungu tónlistarfólki leiðsögn og aðstöðu til þess að láta tónlistardrauma sína rætast. Saman setja þessar hljómsveitir á svið þrusu tónleika, sem skemmta bæði ungum sem öldnum. Hljómsveitarmeðlimir eru á aldrinum ellefu ára til tvítugs og er tónlist hljómsveitanna fyrir öll.
Spunamaraþon Improv Ísland
Improv Ísland
Improv Ísland ætlar að leggja undir sig Þjóðleikhúskjallarann og bjóða upp á brakandi ferska spunasýningu á hálftíma fresti frá morgni til kvölds.
Tilraunakennda portrettstúdíóið
Andersen ehf.
Opnað verður „pop-up“ ljósmyndastúdíó í yfirgefnu verslunarrými í miðbænum. Þar býðst gestum og gangandi að koma í ókeypis portrettmyndatöku hjá atvinnuljósmyndara þar sem stefnt er að því að fanga persónuleika þeirra sem verið er að mynda og einnig nýta lýsingu og ljósmyndatæknina til að skapa áhugaverðar myndir. Brotnar verða upp úreltar staðalímyndir varðandi ákveðið myndmál og fyrirfram ákveðnar reglur í ljósmyndun.
Silfursveiflan
Silfursveiflan er hljómsveit skipuð fimm einstaklingum sem sérhæfa sig í að flytja gömlu lögin þeirra Hauks Morthens og Ragga Bjarna. Hljómsveitin hefur starfað í nokkur ár og segja meðlimir að tónlistin „gleðji sérstaklega eldra fólkið okkar“.
Helga EA2 Helga EA2 (fyrir rödd og rafrás)
Bylgjur í báðar áttir
Verkið Helga EA2 flytur örlagasögu skips sem var keypt til Íslands nokkru fyrir þarsíðustu aldamót. Helga, unnusta eins smiðsins, lést við sjósetningu skipsins og var eftir það talin verndarengill þess og fylgdi því og verndaði þar til skipið sigldi áhafnarlaust út á haf og hefur síðan ekki sést. Sögukonan Heiða Árnadóttir dregur áhorfendur inn í nýjan heim með leikrænni tjáningu og dáleiðandi söng.
Víst fílarðu óperu
Sviðslistahópurinn Óður
Haldnir verða tónleikar í Þjóðleikhúsinu þar sem perlur óperuformsins verða fluttar á íslensku og áhorfendur leiddir inn í þennan heim á vinalegan máta. Óperuformið getur reynst mörgum óaðgengilegt og tormelt við fyrstu kynni en markmið tónleikanna er að ræða um formið, verkin og söguna á máta sem gefur hinum almenna Íslendingi færi á að kynnast því á eigin forsendum.
Menningarnæturtónleikar KEX
Kex Hostel
Haldnir verða nýbylgju-útitónleikar í KEX-portinu á Menningarnótt. Þeir listamenn sem taka þátt eru hluti af því ferskasta sem er að gerast í tónlistarsenunni á Íslandi í dag. Tónleikarnir byrja klukkan 14 og standa til klukkan 21.
Með kveðju úr Eyjum
Félagið Íslensk Grafík
Gíslína Dögg býr og starfar í Eyjum og er grafíklistamaður ársins 2024 hjá félaginu Íslensk grafík. Verkin á sýningunni munu tengjast eldgosinu á Heimaey og þeim áhrifum sem gosið hafði á samfélagið með tilliti til náttúrunnar og samfélagsins. Hér er um að ræða grafíkverk og innsetningar í bland við ýmiss konar aðferðir og náttúrustemmningu sem hún hefur notað í listsköpun sinni.
Tveir listhópar voru svo útnefndir sem „Listrænn umbreytir“ Menningarnætur
FORWARD
Í Hallargarðinum
FORWARD danshópurinn samanstendur af ungum dönsurum á aldrinum 18 – 30 ára og var útnefndur Listhópur Reykjavíkur 2023. Danshópurinn æfir reglulega með fjölbreyttum tæknikennurum og listafólki. Í gegnum árin hefur FORWARD tekið þátt í fjölmörgum viðburðum og hátíðum á Íslandi sem og erlendis. Forward var tilnefnd til Grímunnar fyrir „Sprota Ársins“ 2022. Hópurinn mun taka yfir Hallargarðinn á Fríkirkjuvegi.
List án Landamæra
Portið í Hafnarhúsinu
List án landamæra ætlar að glæða portið í Hafnarhúsinu lífi í samstarfi við Listasafn Reykjavíkur. Hópurinn mun umbreyta portinu í lífræna og listskapandi menningarveislu sem er aðgengileg fyrir öll.