Sex borgarhátíðir hljóta styrk
Hátíðirnar hljóta samstarfssamning við Reykjavíkurborg og styrk næstu þrjú árin en þær eru: Hinsegin dagar – Reykjavík Pride, Hönnunarmars, Iceland Airwaves, RIFF – Alþjóðleg kvikmyndahátíð í Reykjavík, Óperudagar og Reykjavík Dance Festival.
Hinsegin dagar – Reykjavík Pride, Hönnunarmars og Iceland Airwaves hljóta 10 milljónir króna hver á ári og RIFF – Alþjóðleg kvikmyndahátíð í Reykjavík og Reykjavík Dance Festival hljóta 7,5 milljónir hvor á ári. Reykjavík Dance Festival hefur verið borgarhátíð frá árinu 2020 en hinar hafa verið borgarhátíðir frá árinu 2017.
Nýliðinn í hópi borgarhátíða er Óperudagar sem hlýtur 5 milljónir á ári. Í umsögn um Óperudaga segir meðal annars að Óperudagar séu hátíð allra greina klassískrar sönglistar og að hátíðin hafi, þrátt fyrir að vera ung að árum, þrisvar sinnum hlotið tilnefningu sem Tónlistarviðburður ársins á Íslensku tónlistarverðlaununum og unnið verðlaunin einu sinni.
Hlutverk borgarhátíða er meðal annars að efla menningu og mannlíf í Reykjavík en þær þurfa líka að uppfylla ýmis önnur skilyrði, svo sem að vera aðgengilegar og sýnilegar, vera með alþjóðlega tengingu og uppfylla kröfur um fagmennsku og gæði.