Viðey
Opnunartími:
mán - sun: 10.15 - 18.30
Vefsíða: https://borgarsogusafn.is/videy
Tölvupóstur: videy@reykjavik.is
Hér má upplifa þúsund ára sögu og njóta einstakrar náttúru. Viðey er perla sem ber að gæta og varðveita. Sýnum nærgætni í umgengni við hana svo hægt sé að koma og njóta náttúru hennar aftur og aftur. Eyjan er afar gróðursæl og var öldum saman talin ein besta bújörð landsins. Þar bjuggu menntamenn og áhrifamenn í íslensku samfélagi og þar sjást enn ummerki túna og hlaðinna garða.
Eyjan skiptist í tvo hluta, Heimaey og Vesturey sem tengjast með Eiðinu. Á austurhluta Heimaeyjar er að finna rústir þorps frá tímum Milljónafélagsins þegar útgerð og mannlíf stóð þar í miklum blóma. Nú standa þar eftir aðeins tvær byggingar og rústir einar sem minna á liðna tíma. Á Heimaey standa ein elstu hús landsins, Viðeyjarkirkja og Viðeyjarstofa sem áður hýstu heldri fjölskyldur en eru nú opin almenningi og þar er einnig rekinn veitingastaður. Sagan drýpur af hverju strái í Viðey en eyjan er jafnframt útivistasvæði í eigu Reykvíkinga og öllum er velkomið að koma og njóta kyrrðar og náttúru eyjarinnar.
Friðarsúlan
Friðarsúlan í Viðey er hugarfóstur myndlistarmannsins, tónlistarmannsins og friðarsinnans Yoko Ono og er hugsuð sem leiðarljós fyrir heimsfrið. Verkið er í formi „óskabrunns“ en á hann eru orðin „Hugsa sér frið“ grafin á 24 tungumálum. Upp úr brunninum stígur ljóssúla sem er saman sett úr fimmtán geislum sem sameinast í einu sterku ljósi. Sex ljósgeislanna fara lárétt um göng á palli í kring um brunninn og er endurkastað upp á við með speglum. Pallurinn er þakinn þrenns konar íslensku grjóti – líparíti, grágrýti og blágrýti. Þessi hönnun er táknræn tjáning Yoko Ono á leiðbeiningarverki sem hún gerði árið 1965 og nefnist Ljóshús. „Ljóshúsið er tálsýn, byggt úr tæru ljósi. Sláðu upp strendingum á ákveðnum tíma dags, við ákveðna kvöldbirtu sem streymir gegnum strendingana, og ljóshúsið birtist í miðju vallarins eins og táknmynd, nema hvað þessi táknmynd býður þér inngöngu ef þú vilt. Svo kann að fara að ljóshúsið birtist ekki daglega, alveg eins og sólin skín ekki daglega.“
Kveikt er árlega á Friðarsúlunni á eftirfarandi dögum:
9. október - 8. desember (frá fæðingardegi John Lennons til dánardægurs hans)
21. - 31. desember
18. febrúar
20. - 27. mars