GF5D9716

Tjörnin, Hljómskálagarðurinn og Vatnsmýrin

Hljómskálagarður 0, Reykjavík 101, +354 411 1111

Vefsíða: https://reykjavik.is/hljomskalagardurinn-tjornin-og-vatnsmyrin

Fá opin svæði í Reykjavík eiga sér fastari sess í hjörtum borgarbúa en Tjörnin og hennar nánasta umhverfi, Hljómskálagarðurinn og Vatnsmýrin þar sem náttúra og mannlíf mætast í miðri stórborg á einstakan máta. Við norðurenda Tjarnarinnar hófst þéttbýlismyndun í Reykjavík á 18. öld og síðan þá hefur Tjörnin verið miðpunktur byggðar í Reykjavík og mikilvægt svæði fyrir útivist og leiki. Fyrir höfuðborg sem er að mestu umkringd sjó er einstakt að hafa svo stóra ferskvatnstjörn í miðju borgarinnar. Hið auðuga lífríki Tjarnarinnar, einkum hið fjölskrúðuga fuglalíf hefur mikið aðdráttarafl fyrir borgarbúa. Lagt hefur verið kapp að því að hlúa að velferð fuglalífsins m.a. með verndun votlendisins í Vatnsmýri sunnan Hringbrautar en þar er nú friðland fyrir fugla sem Reykjavíkurborg stendur að í samstarfi við Háskóla Íslands og Norræna Húsið. Hljómskálagarðurinn við Suðurtjörn er með stærri almenningsgörðum í Reykjavík. Hann á nafn sitt að rekja til Hljómskálans sem reis 1923 og hefur löngum verið æfingastaður reykvískra lúðrasveita. Fjöldi smærri almenningsgarða eru í nágrenni Tjarnarinnar t.d. Hallargarðurinn, Mæðragarðurinn og Austurvöllur. Við Tjörnina og nálægar götur standa mörg merk hús t.a.m. Ráðhús Reykjavíkur, Ráðherrabústaðurinn við Tjarnargötu, Iðnó, Fríkirkjan, Listasafn Íslands og Kvennaskólinn að ógleymdum Hljómskálanum.

#borginokkar